fimmtudagurinn 17. mars 2011 - 10:24 |

80 milljónir í styrki til ađ bćta ţjónustu viđ börn

Veittar verða 80 milljónir króna í styrki til fjölbreyttra verkefna með það að markmiði að efla og bæta nærþjónustu við langveik börn og börn með ofvirkni og athyglisbrest. Í fyrra var einnig úthlutað 80 milljónum króna í þessu skyni.

 

Styrkirnir eru veittir á grundvelli samstarfssamnings velferðarráðuneytisins, mennta- og menningarmála­ráðu­­neytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um tilraunaverkefni til styrktar langveikum börnum og börnum með ofvirkni og athyglisbrest sem undirritaður var 4. desember 2009. Í samningnum er gert ráð fyrir að veita styrki til verkefna af þessum toga árlega í þrjú ár og hefur nú verið úthlutað í tvö skipti.

 

Alls bárust umsóknir um styrki til 125 verkefna frá 36 aðilum, þ.e. sveitarfélögum, samtökum sveitarfélaga og skólaskrifstofum, fyrir rúmar 319 milljónir króna en sem fyrr segir voru 80 milljónir króna til ráðstöfunar.

Verkefnisstjórn fór yfir styrkumsóknirnar og byggði við mat á þeim á skýrslum tveggja starfshópa frá árinu 2008 um þjónustuúrræði fyrir langveik börn og bætta þjónustu við börn með ofvirkni og athyglisbrest. Einnig byggði verkefnisstjórnin á áliti foreldra um forgangsröðun þjónustu samkvæmt rýnihóparannsókn sem velferðarráðuneytið stóð fyrir um svipað leyti.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hafa staðfest tillögu verkefnisstjórnar um úthlutun styrkjanna.

Listi yfir úthlutun styrkja 2011

Vefumsjón